Saga FMS

Miðlun sjávarafurða frá fiskiskipum til neytenda hefur þróast ört á síðustu þrjátíu árum. Með tilkomu fiskmarkaða hafa söluferli orðið skilvirkari og allar boðleiðir styst til muna sem stuðlar að hraðara söluferli, þannig að ferskleiki og gæði vörunnar haldast óskert alla leið. Í dag eru afurðir boðnar upp á frjálsum uppboðsmarkaði og geta viðskiptavinir í því skyni nýtt sér fullkomin uppboðskerfi á internetinu. Þegar skipin koma í land bíða starfsmenn fiskmarkaða við bryggju og eru reiðubúnir að taka við aflanum og miðla honum til kaupenda.

FMS (áður Fiskmarkaður Suðurnesja) er elsti starfandi fiskmarkaður Íslands. Megintilgangur starfseminnar er að reka öflugt miðlunarnet sjávarafurða um land allt auk þess að stýra reglulegum uppboðum í landi. Aðalskrifstofa fyrirtækisins er í Sandgerði en útstöðvar eru reknar við fimm aðrar hafnir sem er að finna í Grindavík, á Höfn og Ísafirði, Patreksfirði og Siglufirði.

Starfsemin hófst þann 24. maí 1987 og fór fyrsta uppboðið fram þann 14. september sama ár. Strax í upphafi var ákveðið að halda uppboð á nýveiddu sjávarfangi á tveimur stöðum samtímis, í Njarðvík og Grindavík. Þetta var fyrir tíma internets og farsíma og því notuðust kaupendur og seljendur við þá einföldu aðferð að miðla kaupum og sölu um fiskmarkaði símleiðis. Þrátt fyrir frumstæða tækni til að byrja með tóku fleiri fiskmarkaðir að bætast við, í Hafnarfirði, Þorlákshöfn og Sandgerði. Árið 1992 stóð FMS í fyrsta skipti fyrir rafrænu uppboði með samræmdri tækni síma og tölvu. Með því var stigið mikilvægt skref í stofnun sameiginlegrar Reiknistofu fiskmarkaða (RSF) sem hafði það að meginhlutverki að tengja saman alla fiskmarkaði landsins í gegnum sölu- og uppboðskerfi ásamt umsjón með sérhæfðri uppboðsklukku. RSF sinnir því hlutverki enn og sér jafnframt um alla umsýslu uppboðskerfa og greiðslumiðlun. Þetta fyrirkomulag samræmdra uppboða hefur vakið athygli út fyrir landsteinana og þykir í raun einsdæmi í heiminum, sem fleiri þjóðir hafa tekið upp.

Þegar starfsemi FMS hófst var þjónustuhluti fyrirtækisins frekar ómótaður. Fyrst um sinn voru engar móttökustöðvar starfræktar og var ætlast til þess að kaupendur kæmu sjálfir upp að skipshlið og vitjuðu afurða sinna. Brátt kom í ljós að við þessar aðstæður væri full þörf á að mynda heppilega tengingu milli seljenda og kaupenda. Í kjölfarið þróaðist það fyrirkomulag hjá FMS að reka móttökustöðvar á staðsetningum sínum víða um land, seljendum og kaupendum til þjónustu reiðubúnar. Þessi þjónusta hefur þróast í það sem nú er og FMS starfrækir sex starfsstöðvar um allt land og sjá þær starfsstöðvar um að þjónusta fleiri hafnir í sínu nágrenni. FMS selur því reglulega fisk frá allt að tuttugu höfnum um land allt. Á ársgrundvelli fara í gegnum fyrirtækið allt að 28.000 tonn af sjávarafurðum. FMS rekur starfsemi sína í eigin húsnæði í Grindavík (1400 fm), Sandgerði (1750 fm), Patreksfirði (600 fm), Siglufirði (800 fm), Höfn (800 fm) en er í leiguhúsnæði á Ísafirði. Öll athafnasvæði fyrirtækisins í kringum landið eru eins og best verður á kosið og eru í A-flokki Matvælastofnunar (MAST).

Á nýrri öld hefur starfsemi FMS verið í sífelldri þróun og rekstrarhagræðingu en á sama tíma hefur verið kappkostað að efla skilvirkni og bæta þjónustu. Fyrirtækið hefur sameinað félög sem það átti stóran hlut í og um áramót 2019/20 gengu fiskmarkaðir á Patreksfirði og Siglufirði inn í samstæðuna, sem breytti við það tilefni nafni sínu úr Fiskmarkaður Suðurnesja hf í FMS hf.

FMS leggur mikla áherslu á að hlúa vel að öllum vaxtarbroddum í rekstri og með stækkun fyrirtækisins hefur stöðugleiki og þjónustugeta aukist til muna. Í farsælum rekstri FMS er framtíðin uppfull af ferskum tækifærum og besti hluti sögunnar er sá sem enn er óskrifaður.